Upplýsingar


Í júlí mun Kóder halda forritunar-sumarbúðir fyrir 10 - 12 ára stelpur og stráka. Við munum halda þrennar 5 daga sumarbúðir sem munu hverjar hafa allt að 30 þátttakendur. Þátttökugjald er 40.000kr á hvern einstakling. Þær verða haldnar í Íþróttahúsi Þykkvabæjar.


Allt er innifalið í verðinu. Það eina sem þátttakendur þurfa að taka með sér í búðirnar eru föt, svefnpoki, tannbursti og góða skapið!


Við munum bjóða þátttakendum upp á þrjár staðgóðar máltíðir á dag, eldaðar á staðnum og snarl tvisvar á dag. Við komum til móts við allar sérstakar fæðisþarfir. Yfir vikuna munum við kenna bæði grunnatriði í forritun ásamt vélmennaforritun. Við gerum ekki ráð fyrir neinni þekkingu í forritun af hálfu þátttakenda.


Helsta markmið okkar með búðunum er að kenna forritun og upplýsingatækni á öðrum vettvangi en hefur áður verið gert hér á landi. Við ætlum okkur að samtvinna kennsluna með sumarbúðastarfsemi til þess að gera hana skemmtilegri og meira spennandi en áður.


Þar að auki viljum við einfaldlega auka framboð í sumarverkefnum fyrir börn. Það er einföld staðreynd að hæfni í upplýsingatækni er orðin einn mikilvægasti þátturinn til að skara framúr á vinnumarkaði. Með því að setja upp þessar sumarbúðir fáum við tækifæri til þess að breyta annars áhugaverðu námskeiði í djúpa og heildstæða upplifun. Í kennslu okkar beitum við fjölbreyttum kennsluaðferðum á borð við jafningjafræðslu og lærdóm í gegnum leik og verkefnavinnu. Þátttakendur leita skapandi lausna við vandamálunum sem við kynnum fyrir þeim og hvetjum við þau þannig til að þróa og efla hæfileika sína í skapandi vandamálalausnum. Að læra að leysa vandamál kennir ungmennum að hugsa í lausnum.


Við viljum líka brjóta þá staðalímynd að forritun sé bara fyrir stráka. Til þess að hvetja fleiri stelpur til mætingu verðum við með föst kynjuð pláss í hverjum búðum. 15 stelpur og 15 strákar. Með þátttakendum verða tíu þaulreyndir leiðbeinendur og kennarar frá Kóder. Við erum með einn leiðbeinenda fyrir hverja þrjá þátttakendur. Ekki hika við að spurja ef þú hefur einhverjar spurningar, hægt er að hafa samband póstleiðis á koder@koder.is eða símleiðis í síma 663-1806.


Kóder stendur fyrir búðunum. Kóder er frjáls félagasamtök sem hefur á síðastliðnum tveimur árum kennt rúmlega 1300 börnum undurstöðuatriði í forritunarlegri hugsun á námskeiðum um allt land. Kóder er rekið án hagnaðar af fagfólki í hugbúnaðargeiranum. Í stjórn sumarbúðanna sitja Eyþór Máni Steinarsson, stjórnarformaður Kóder og verkefnastjóri Skema í HR; Fríða Agnarsdóttir, hönnunar og smíðakennari; Borghildur Salína Leifsdóttir, stjórnarformaður ungliðadeildar CISV á Íslandi og Ólafur Hrafn Halldórsson, formaður NST og meðstjórnarndi Landssambands Ungmennafélaga


Skráning